16.8.2009 | 22:39
Gemsarnir, Tölvurnar, Pizzurnar og ESB
Ég ólst aldrei upp við þau þægindi sem æska landsins gerir í dag. Í mínu ungdæmi voru engir gemsar, tölvur eða pizzur sem hægt var að panta sér.
En ég man eftir því þegar þetta kom allt fyrst fram á sjónarsviðið. Margir voru tortryggnir og leyst ekkert á nýjungarnar.
Minnist ég þess að margir hræddust gemsana í upphafi og töldu þá hin mestu skaðræðistól og hétu því að notast aldrei við slík tæki. Eins var farið með tölvurnar og ég man eftir því að sérstaklega eldra fólk taldi pizzurnar vera hluta af Amerískri lágkúru og hétu því að fá sér aldrei sneið, lambakjötið var nógu gott á þeirra disk og þar sem þau höfðu aldrei alist upp við neitt annað, þótti þeim óþarfi að breyta út frá venjunum.
Hræðslan við breytingar á sér margar birtingarmyndir en byggist þó fyrst og fremst á fordómum, hræðslu við hið óþekkta. Ávallt þegar nýjungar koma fram á sjónarsviðið þá hafa þeir hæst sem ekki hafa kynnt sér málið og telja sig knúna til þess að vara menn við því að breytingarnar muni riðla öllu mannlegu lífi fólks og leggja það í rúst.
Þessir sömu menn þrjóskast lengi vel við að notfæra sér nýjungarnar en með tímanum ákveða þeir að prófa og sjá hvort að breytingin sé jafn slæm og þeir héldu.
Menn, sem óttuðust gemsana, notast flestir við þá í dag og þeir sem héldu að tölvurnar væru skaðræðistól, notast einnig við þær í dag. Margir þeirra nota raunar þessi tæki til að berjast gegn öðrum nýjungum sem gætu eyðilagt samfélagið að þeirra þröngsýna mati.
Eldra fólk, sem vildi ekkert annað en lambakjötið sjá, pantar sér pizzur í dag og finnst þær góðar.
Í dag er töluverð hræðsla hjá mörgum gagnvart ESB. Bent hefur verið á með skýrum rökum að hag Íslands sé best borgið í sambandinu en hinir fordómafullu eru ekkert að láta staðreyndirnar standa í vegi sínum.
Löngu fyrir tíma gemsana þá riðu bændur í bæinn til að mótmæla heimilissímanum og töldu að notkun tækisins myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Íslenskt samfélag.
Skrifstofubóndinn og einangrunarsinninn Jón Baldur Lorange var ekki fæddur á þeim tíma en að sjálfsögðu hefði hann riðið fremstur manna, ef hann hefði verið uppi á þeim tíma.
Bændur í Finnlandi voru mjög andsnúnir ESB til að byrja með en eftir að Finnland gekk í sambandið þá hefur afstaða þeirra breyst og mikill meirihluti bænda, þar í landi, er hlynntur ESB í dag.
Þannig er því raunar farið með allar stéttir í öllum ESB löndum. Allsstaðar er mikill meirihluti fólks ánægt með sambandið þrátt fyrir að andstaða við það hafi verið mikil áður en löndin gengu í sambandið.
Í dag eru liðin 15 ár frá því að gemsar komu fyrst til Íslands. Hvernig ætli lífið væri ef hlustað hefði verið á þá sem ekki vildu sjá tækin?
Afmæli gemsans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.