26.7.2009 | 23:20
Rangfærslur og lygar Jóns Bjarnasonar
Þessa dagana fer mikið fyrir hræðsluáróðri, rangfærslum og lygum hjá ESB andstæðingum. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er einn þeirra manna sem beitir slíkum aðferðum.
Í atkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að ESB sagði Jón nei. Í stað þess að skoða hvaða samning við kynnum að fá þá ákvað Jón að betra væri að halda sem fastast í óbreytt efnahagsástand. Hann treysti ekki þjóðinni til að taka lýðræðislega ákvörðun um framtíð sína. Einangrun landsins er búfræðingnum frá Strandasýslu mikilvægast allra mála.
Það sem er alvarlegast við yfirlýsingu Jóns, í samtali hans við RÚV, eru vísvitandi lygar og rangfærslur sem felast í orðum hans. Hann nefnir hótanir Breta og Hollendinga, segir að hryðjuverkalög Breta, yfirlýsingar Hollendinga um Icesave deiluna og kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu þess eðlis að fresta þurfi umsóknarferli okkar að ESB.
Bretar hafa lýst yfir opinberum stuðningi við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hryðjuverkalögin eru vissulega umdeild en að notfæra sér milliríkjadeilu sem fjallar ekki með beinum hætti um ESB er lágkúra á háu stigi.
Utanríkisráðherra Hollands hefur farið mikinn undanfarið en hótanir hans lýsa ekki afstöðu heillar þjóðar. Á meðal Hollendinga hefur verið umtalsverður stuðningur við aðildarumsókn Íslands þó svo að enn eigi eftir að koma opinber stuðningsyfirlýsing frá þjóðinni.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir þær kröfur til Íslendinga að við stöndum við skuldbindingar okkar eins og siðaðri þjóð sæmir.
Málflutningur Jóns er lýsandi dæmi um kjánalegan málflutning einangrunarsinna. Hann hikar ekki við að fara með rangfærslur og beita fyrir sig lygum. Jón getur seint talist til lýðræðissinna þar sem hann viðurkennir ekki lýðræðislegar kosningar Alþingis um aðildarumsókn að ESB.
ESB andstæðingar eru búnir að koma sér fyrir í skotgröfum sínum og sjá sér ekki annað fært en að ljúga að þjóðinni. Málflutningur þeirra er sá ómerkilegasti sem við höfum séð í langan tíma og er dæmdur til þess að mistakast. Þjóðin er ekki það heimsk að hún láti blekkja sig með svona dellu.
Vill fresta umsóknarferli ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
„ Einangrun landsins er búfræðingnum frá Strandasýslu mikilvægast allra mála.“
Minnir á gamla tíma. Þá á ég við að bændur hafa löngum haft tilhneygingu til þess að krefjast kyrrstöðu til að verja hagsmuni sína og oft finnst mér eyma af hugarfari fyrri alda í málflutningi Jóns.
Sævar Finnbogason, 27.7.2009 kl. 00:24
Menn sem telja sig miklar mannvitsbrekkur og hafa hina einu kórréttu skoðun munu ætíð gera hvað þeir geta til að hindra að aðrir fletir séu skoðaðir, þeir eru fyrirferðamiklir en að sama skapi innihaldsrýrir.
Þessi fælni sumra gegn því að ESB sé skoðað minnir á þá framsýnu menn sem í upphafi síðustu aldar riðu hópreið austan af landi, til Reykjavíkur, til að mótmæla ritsímanum.
Ritsíminn var á sínum tíma mikið framfaraspor og verk Hannesar Hafstein. Þá, rétt eins og nú, andskotaðist stjórnarandstaðan af miklum móð gegn málinu án þess að leggja fram betri lausn.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 27.7.2009 kl. 12:25
Góður pistill Kjartan og þarfur. Það er svo hér á landi að nánast er vonlaust að deila um pólitík. Hér eru notuð gífuryrði og upphrópanir en hlutirnir sjaldnast skoðaðir af einhverju viti. Auðvitað er margt gott við ES aðild og sjálfsagt eitthvað sem við gætum verið án en ég er jákvæður og amk. alveg 100 % viss að ég vil fá að sjá samning. Hér eru menn kallaðir landráðamenn og eitthvað jafnvel enn verra ef þeir eru jákvæðir gagnvart ES aðild. Ætli Evrópubúar séu svo vitlausir upp til hópa að þeir hafi viljandi afsalað sér öllu fullveldi og lýðræði í þjóðaratkvæðagreiðslu tæplega þrjátíu þjóða ? Varla.
Tryggvi Marteinsson (IP-tala skráð) 27.7.2009 kl. 17:28
Sævar þú hittir hér naglann á höfuðið en bændur hafa löngum verið taldir fremur afturhaldssamir og greinilegt að flestir vilja litlu breyta. Gott dæmi um slíkan bónda er Ásmundur Einar Daðason sem nýlega var kjörinn á þing, svo virðist sem stráksi hafa aldrei farið úr sveitinni áður en hann náði þingsæti. Ekki kemur á óvart að hann er harður andstæðingur ESB.
Þú ert meistari samlíkingana Axel Jóhann. Ég hef einmitt imprað á þessu áður að þeir sem eru hræddir við nýjungar eru hvað hræddastir við ESB. Bein tengsl eru t.d. á milli þeirra sem hræddust útlendinga á sínum tíma og þeim sem hræðast ESB nú. En ég býst við því að þeir eigi eftir að ná sáttum við ESB með tímanum en þá tekur annar hræðsluáróður við hjá þeim.
Það er lágmarkskrafa að við skoðum hvaða samning ESB býður okkur, um það ætti öll þjóðin að ná sáttum. Einnig þarf að ná sáttum um þjóðaratkvæðagreiðslu. Að vilja ekki skoða málið ofan í kjölinn er þröngsýni á hæsta stigi. Gífuryrði andstæðinga ESB virðast hafa magnast upp undanfarið og halda ekki vatni. Eins og þú bendir réttilega á Tryggvi er algjörlega fráleitt að halda því fram að allar 27 þjóðir Evrópusambandsins séu ekki sjálfstæðar.
Kjartan Jónsson, 27.7.2009 kl. 19:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.