Birgitta Jónsdóttir reynir að afvegaleiða umræðuna um ESB

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, hefur farið mikinn að vanda á þingi og í fjölmiðlum nýlega. Sakar hún Alþingi um einelti, hótanir og kúganir.

Í aðdraganda kosninga lýsti Birgitta því margsinnis yfir að stefna Borgarahreyfingarinnar væri að leyfa þjóðinni sjálfri að taka lýðræðislegar ákvarðanir um framtíð sína m.a. með þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB aðild.

Þegar leið að atkvæðagreiðslu um málið varð hinsvegar ljóst að stefna hennar hafði breyst og hótaði hún því að ef ríkisstjórnin samþykkti ekki tilögur Borgarahreyfingarinnar um Icesave málið þá myndi hún kjósa gegn aðildarumsókn að ESB.

Hótunina stóð hún við ásamt flokkssystkinum sínum þeim Þór Saari og Margréti Tryggvadóttur sem einnig sviku gefin kosningaloforð og stimpluðu sig sem tækifærissinna.

Birgitta hefur ítrekað sakað Samfylkinguna um ólýðræðisleg vinnubrögð og þá hefur hún sakað Jóhönnu Sigurðardóttur um einræðistilburði.

Hún segir að þingmenn Vinstri Grænna séu beittir andlegu ofbeldi af hálfu Samfylkingarinnar og að þingmenn VG fái ekki að hafa sjálfstæðar skoðanir á ESB. Vegna þessa vill hún að tekin verði upp á þingi Olewus eineltisáætlunin. Notast er við þá áætlun í flestum skólum og þykir hún hafa gefið góðan árangur í baráttunni gegn einelti.

Skilningur Birgittu á einelti er þó jafn takmarkaður og skilningar hennar á flestum öðrum málefnum. Í umræðuþáttum fyrir kosningar kom t.d. í ljós að hún vissi ekki hvað stjórnlagaþing væri.

Hatur hennar gegn ESB er slíkt að hún getur ekki unað lýðræðislegum kosningum þingsins um aðildarviðræður við sambandið og reynir því að afvegaleiða umræðuna með tali um "einelti" Samfylkingarinnar.

En við því var að búast af einangrunarsinnum að þeir leituðu allra leiða til að rægja aðildarsinna. Þeir geta einfaldlega ekki sætt sig við að Ísland er á leiðinni í ESB.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Ég verð nú að viðurkenna að ég hef ekki mikið álit á þessari borgarhreyfingu eftir þetta allt saman. Þráinn Bertelsson stóð sig samt mjög vel og lét þetta fólk heyra það og flott hjá honum. Ég var ekkert undrandi á þessum viðsnúninngi Birgittu og Þór Saari, en það olli mér miklum vonbrigðum að Margrét Tryggvadóttir skyldi hafa farið þessa leið líka. Mér finnst hún oft koma vel fyrir í umræðum og kemur með góða punkta, bæði fyrir og eftir kosningabaráttuna. Svo nokkrum dögum fyrir ESB atkvæðagreiðsluna þá var hennar málflutningar til dæmis í Kastljósi engan veginn í samræmi við atkvæði hennar og getur maður ekki annað en undrast þessi vinnubrögð öll.

Jón Gunnar Bjarkan, 25.7.2009 kl. 18:25

2 Smámynd: Kjartan Jónsson

Ég get tekið undir með þér að mér leyst stórvel á hreyfinguna í upphafi og taldi að hér væri um að ræða nýtt stjórnmálafl sem talaði fyrir hönd fólksins í landinu og væri á móti spillingu.

Seinna kemur annað í ljós og hreyfingin svíkur helsta stefnumál sitt þ.e.a.s. að gefa þjóðinni val um hvort gengið sé í ESB eða ekki.

Margrét var efnileg og lofaði góðu en lét kaupa sig og sveik kjósendur sína. Þráinn stóð a.m.k. við sýna sannfæringu og á lof skilið fyrir það.

Ekki veit ég hver framtíð þessarar hreyfingar verður en nokkuð ljóst er að hún hefur beðið skipsbrot og tapað trausti kjósenda sinna að miklu leyti.

Við skulum samt ekki gleyma því að margt gott fólk er í Borgarahreyfingunni. Þeim óska ég velfarnaðar.

Kjartan Jónsson, 25.7.2009 kl. 18:58

3 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Það hljóp hressilega í brúnir hjá mér þegar meðlimir Borgarahreyfingarinnar tilkynntu framboð sitt í s.l. alþingiskosningum.

Myndaði mér í sjálfu sér ekki stóra skoðun á þeim, en samt kraumaði sú hugsun svona aftast í hausnum á mér að það gæti ekki verið mikið í þau spunnið.

Aðalega vegna þess að mér þótti þetta eiginlega bara samsuða úr öllum áttum og hornum pólitíkarinnar, og virtist aldrei vera fullmótuð stjórnmálaskoðun eða stefna hjá þeim. A.m.k. virtist ekki vera þegar talað var við meðlimi þessa flokks í sitthvoru lagi. 

Voru allir með sínar eigin hugmyndir, og maður sá aldrei nægjanlega samstöðu innan flokksins nema þegar allir slógu taktinn á pottana sína.

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 25.7.2009 kl. 20:57

4 Smámynd: Kjartan Jónsson

Ég get tekið undir orð þín að mörgu leyti Ingibjörg.

Hugmynd hreyfingarinnar í upphafi var að fá saman fólk úr ólíkum áttum með mismunandi skoðanir og var það e.t.v. í ljósi umræðu um svokölluð "einstaklingsframboð" sem svo var gert. Átti hreyfingin því að þróast með tímanum í stað þess að byrja með föst stefnumál.

Þótti mér hreyfingin vera ágæt lengi vel og kom hún með ferskan blæ inn í pólitíkina. Kosningasigur hennar sýndi svo að allt er hægt í pólitíkinni.

En því miður virðist hreyfingin nú að mestu gengin auðvaldinu á hönd og slæmt að hún hafi þróast í þá áttina.

Kjartan Jónsson, 26.7.2009 kl. 00:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband