31.8.2009 | 12:14
Afstaða ESB er skýr - Virða skal frelsi fjölmiðla
Fyrir skömmu birtist verulega ógeðfelld grein í Aftonbladet þar sem Ísraelskir hermenn voru sakaðir um að stela líffærum úr föllnum Palestínumönnum. Þeir sem þekkja til áróðurs nasista vita að viðlíka áróður var notaður í Þýskalandi á sínum tíma.
Þrátt fyrir að grein þessi sé afar siðlaus þá er það ekki í verkahring stjórnvalda að stjórna því efni sem fjölmiðlar birta. Fjölmiðlar innan Evrópusambandsins hafa frelsi til að birta það sem þeim sýnist án afskipta stjórnvalda og er það vel. Hinsvegar geta fjölmiðlar sætt rannsókn ef þeir birta ólöglegt efni t.d. kynþáttahatur.
Ekki ætla ég mér að dæma um hvort umrædd grein sé ólögleg en rannsókn á því væri æskilegri en afskipti stjórnvalda af frjálsri fjölmiðlun.
Svipað mál kom upp árið 2006 er varðaði Múhameðsteikningarnar svokölluðu. Þar var þess krafist að stjórnvöld hefðu afskipti af birtingu ósæmilegra teikninga sem birtar voru í Dönskum fjölmiðlum. Svar Danskra stjórnvalda og Evrópusambandsins var það að báðir aðilar fordæmdu myndbirtinguna en töldu jafnframt að fjölmiðlafrelsið væri það mikilvægur þáttur í lýðræðisríkjum að það mætti með engu móti skerða.
Það er fylgifiskur lýðræðis og frjálsra skoðanaskipta að jafnvel illgjarnir kjánar fái að tjá sig. Verði það frelsi skert búum við ekki lengur í lýðræðisríki.
Evrópusambandið hefur verið leiðandi í baráttunni gegn mismunun og hefur sett skýrar reglugerðir sem banna það að fólki sé mismunað á grundvelli stöðu þess í þjóðfélaginu. Sambandið hefur m.a. margsinnis fordæmt rasisma og tekið skýra afstöðu með jafnréttishugsjónum.
Gyðingahatur hefur opinberlega verið fordæmt af sambandinu og er því rangt að segja að engin slík ályktun sé til. Sjálfsagt er þó að sambandið ítreki þá afstöðu sína enn frekar.
Eins og gerðist, eftir að teikningarnar af Múhammeð voru birtar í Dönskum fjölmiðlum, þá mun Evrópusambandið ítreka að tjáningarfrelsi sé mikilvægasti hornsteinn lýðræðisins og birting á ósæmilegu efni sé fyrst og fremst á ábyrgð fjölmiðlana sem það birta en ekki ESB eða stjórnvöldum meðlimaríkja.
Ítalir vilja að ESB fordæmi Aftonbladet | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.