Baráttan gegn Hells Angels

Upplýsingamiðlun Europol, Hins Evrópska Löggæslusambands á vegum Evrópusambandsins, hefur gagnast Íslenskum stjórnvöldum vel í baráttunni gegn Hells Angels. Meðlimir samtakana hafa hingað til verið stoppaðir á landamærunum og umsvifalaust snúið aftur til síns heima.

Nú er þó komið upp ákveðið vandamál þar sem til stendur að stofna deild samtakana hér á landi af Íslendingum. Því liggur það ljóst fyrir að ómögulegt er að vísa tilvonandi meðlimum deildarinnar úr landinu.

Upp hefur komið sú hugmynd að setja lagasetningu gegn glæpasamtökum sem gerir það að verkum að hægt væri að banna starfsemi þeirra. Hells Angels eru þó hvergi á lista yfir bönnuð samtök og því nokkuð ljóst að lögin sem sett væru, myndu ekki bíta á samtökin. Þó er rétt að geta þess að Hells Angels eru víðast hvar talin vera glæpasamtök en opinbera skilgreiningu á þeim sem slíkum vantar.

Erfitt er í lýðræðisríkjum að leggja blátt bann við starfsemi samtaka. Er svo einungis gert ef sannað þykir að samtökin stundi skipulagða glæpastarfsemi, hryðjuverk eða séu ógn við mannréttindi borgara.

Aldrei myndi ég mæla Hells Angels bót en mér þykir líklegasta ástæða þess, að þau hafi ekki verið bönnuð, sú að ekki sé hægt að sanna með markvissum hætti að það sé á stefnuskrá samtakana að stuðla með beinum hætti að glæpum eða hryðjuverkum.

Ekkert frekar en hægt sé að sanna að Frjálslyndi flokkurinn sé rasistaflokkur með því að vísa eingöngu í stefnuskrá hans.

Að því gefnu að ekki sé hægt að banna Hells Angels þá er besta leiðin, til að berjast gegn samtökunum, aukin Evrópsk samvinna.

Europol hefur háð mikla baráttu gegn Hells Angels á undanförnum árum og hefur fylgst náið með samtökunum. Viðburðir á vegum samtakana hafa verið vaktaðir og Europol hefur þjálfað lögreglumenn, innan Evrópusambandsins, til þess að takast á við samtökin.

Með Evrópskri samvinnu hefur einnig verið komið í veg fyrir að meðlimir samtakana geti ferðast frjálst á milli landa og hefur það vissulega dregið mjög úr vexti samtakana t.d. hefur stofnun þeirra verið tafin töluvert hér á landi með hjálp Europol.

Það er annars undarlegt að Frjálslyndi flokkurinn skuli taka undir þá tillögu er bannar glæpasamtök. Ef flokkurinn hefði verið hér við völd, þá væru Hells Angels fyrir löngu búin að skjóta hér niður rótum. Er það auðvitað vegna þess að Frjálslyndi flokkurinn er eindregið á móti Evrópusambandinu og stofnunum þess. Aðstoð frá Europol hefði ekki verið þegin og ekki nokkrum Hells Angels meðlimi verið meinuð innganga til landsins.

Besta leið Íslenskra stjórnvalda í baráttunni gegn Hells Angels er ekki upptaka nýrra laga heldur innganga í Evrópusambandið.

Gangi Ísland í ESB, fáum við fullt aðgengi að Europol.

Með því móti fá Íslenskir löggæslumenn þjálfun frá Europol í baráttunni gegn Hells Angels og aðgengi okkar að upplýsingum, t.d. um einstaka meðlimi samtakana, myndi batna. Auk þess ættum við rétt á aðstoð frá öðrum löggæslumönnum innan Evrópusambandsins t.d. ef Hells Angels myndu stuðla hér markvisst að glæpum eða skipuleggja alþjóðlega viðburði á vegum samtakana.


mbl.is Vilja láta banna skipulögð glæpasamtök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Ég spyr bara eins og kjáni hvernig "bannar" maður glæpasamtök?  Eru tilvonandi meðlimir glæpasamtaka teknir á teppið hjá yfirvaldinu og beðnir vinsamlega um að ganga ekki í samtökin? 

 Hvernig á að banna þau?? Skipulögð glæpasamtök getur verið ansi víður skilningur orðsins. Eru t.d. ekki þjófagengi skipulögð glæpasamtök?

 Hefur einhver sagt þessu fólki að þetta er bannað ?! ;)

 

Eva Lára (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 22:05

2 Smámynd: Kjartan Jónsson

Hells Angels eru ótvírætt skipulögð glæpasamtök að mati flestra en erfitt er að dæma þau sem slík fyrir rétti. Er það vegna mikillar sönnunarbyrgði ákæruvaldsins í slíkum málum.

Til að banna samtökin þarf fyrst að skilgreina þau sem opinber glæpa- eða hryðjuverkasamtök. Fer málið þá fyrir dómstóla sem skera úr um hvort bann sé nauðsynlegt.

Ætlast er til þess að fólk kynni sér lög áður en það stofnar samtök. Það er því að sjálfsögðu ekki skylda yfirvalda að kynna ákveðnum samtökum lögin áður en þau hefja starfsemi sína.

Talið hefur verið auðveldara að skilgreina hryðjuverkasamtök en skipulögð glæpasamtök. Listann um bönnuð hryðjuverkasamtök má finna hér:

http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_terrorist_organisations

Þarna má sjá hvaða samtök munu verða bönnuð á Íslandi ef þjóðin tekur þá skynsamlegu ákvörðun að ganga í Evrópusambandið.

Kjartan Jónsson, 7.9.2009 kl. 22:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband