Afstaða ESB er skýr - Virða skal frelsi fjölmiðla

Fyrir skömmu birtist verulega ógeðfelld grein í Aftonbladet þar sem Ísraelskir hermenn voru sakaðir um að stela líffærum úr föllnum Palestínumönnum. Þeir sem þekkja til áróðurs nasista vita að viðlíka áróður var notaður í Þýskalandi á sínum tíma.

Þrátt fyrir að grein þessi sé afar siðlaus þá er það ekki í verkahring stjórnvalda að stjórna því efni sem fjölmiðlar birta. Fjölmiðlar innan Evrópusambandsins hafa frelsi til að birta það sem þeim sýnist án afskipta stjórnvalda og er það vel. Hinsvegar geta fjölmiðlar sætt rannsókn ef þeir birta ólöglegt efni t.d. kynþáttahatur.

Ekki ætla ég mér að dæma um hvort umrædd grein sé ólögleg en rannsókn á því væri æskilegri en afskipti stjórnvalda af frjálsri fjölmiðlun.

Svipað mál kom upp árið 2006 er varðaði Múhameðsteikningarnar svokölluðu. Þar var þess krafist að stjórnvöld hefðu afskipti af birtingu ósæmilegra teikninga sem birtar voru í Dönskum fjölmiðlum. Svar Danskra stjórnvalda og Evrópusambandsins var það að báðir aðilar fordæmdu myndbirtinguna en töldu jafnframt að fjölmiðlafrelsið væri það mikilvægur þáttur í lýðræðisríkjum að það mætti með engu móti skerða.

Það er fylgifiskur lýðræðis og frjálsra skoðanaskipta að jafnvel illgjarnir kjánar fái að tjá sig. Verði það frelsi skert búum við ekki lengur í lýðræðisríki.

Evrópusambandið hefur verið leiðandi í baráttunni gegn mismunun og hefur sett skýrar reglugerðir sem banna það að fólki sé mismunað á grundvelli stöðu þess í þjóðfélaginu. Sambandið hefur m.a. margsinnis fordæmt rasisma og tekið skýra afstöðu með jafnréttishugsjónum.

Gyðingahatur hefur opinberlega verið fordæmt af sambandinu og er því rangt að segja að engin slík ályktun sé til. Sjálfsagt er þó að sambandið ítreki þá afstöðu sína enn frekar.

Eins og gerðist, eftir að teikningarnar af Múhammeð voru birtar í Dönskum fjölmiðlum, þá mun Evrópusambandið ítreka að tjáningarfrelsi sé mikilvægasti hornsteinn lýðræðisins og birting á ósæmilegu efni sé fyrst og fremst á ábyrgð fjölmiðlana sem það birta en ekki ESB eða stjórnvöldum meðlimaríkja.


mbl.is Ítalir vilja að ESB fordæmi Aftonbladet
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lægri símtala og SMS kostnaður

Þann 1. Júlí gekk í gildi ný reglugerð Evrópusambandsins um hámarksgjaldtöku fyrir notkun farsíma á milli landa bandalagsins. Hefur þetta þýtt mikla lækkun símakostnaðar fyrir íbúa innan ESB svæðisins.

Fyrir breytingarnar var meðalgjald á SMS skilaboðum 28 evrusent en hámarksgjaldtaka er nú 11 evrusent.

Hámarksverð fyrir hringd símtöl innan ESB er nú 43 evrusent og 19 evrusent fyrir móttekin símtöl. Áður var meðalkostnaðurinn 46 evrusent fyrir hringd símtöl og 22 evrusent fyrir móttekin símtöl frá öðru ESB landi.

Sömuleiðis er það nú ókeypis að taka við SMS skilaboðum. Einnig hefur verið tekið upp sekúndugjald, eftir fyrstu 30 sekúndur símtals, sem tryggir að símanotendur borga einungis fyrir þann tíma sem þeir í raun tala. Áður fyrr var kostnaðurinn að jafnaði 24% hærri en notkunin því símtalskostnaðurinn var einungis mældur eftir heilum mínútum.

Netnotkun í gegnum gemsa hefur einnig snarlækkað en meðalverð á hverju sóttu megabæti var fyrir breytingarnar 1,68 evrur en er nú 1,00 evrur.

Til þess að koma í veg fyrir of mikla símanotkun ætlar Evrópusambandið einnig að bjóða símanotendum að setja sér sitt eigið hámark á mánaðarlegri símanotkun sinni. Verður miðað við 50 evrur eða hærra, kjósi símanotandinn svo. Mun þessi reglugerð taka gildi í Mars á næsta ári.

Með þessum breytingum er ESB að komast til móts við hugsjónir sínar um frjálst markaðssvæði sem á að virka í allar áttir, íbúum svæðisins til haga.

Eins og með um 70% reglugerða Evrópusambandsins þá mun umrætt verðþak einnig taka gildi hér eftir nokkurn tíma en verður að miklu leyti gagnslaust, gangi Ísland ekki í ESB. Er það auðvitað vegna sífelldrar hækkunar evrunnar gagnvart krónunni.

Um leið og þjóðin samþykkir að ganga í Evrópusambandið þá verður krónan bundin föstu gengi við evruna á meðan við bíðum þess að taka upp evru sem okkar gjaldmiðil. Er því spáð að fasta gengið verði um 95-100 krónur til að byrja með. Evran er nú í kringum 180 krónur og munu símtöl okkar því verða um helmingi ódýrari með inngöngu í ESB.

Munur á símakostnaði ef hringt er til Þýskalands

Í þessu dæmi verður sýnt hvernig hámarks símtalskostnaður fyrir Íslendinga sem hringja til Þýskalands verður, annars vegar ef við göngum í ESB og hinsvegar ef við göngum ekki í ESB.

Ísland í ESB - Evra c.a. 95 krónur                       

Hringd símtöl: 40,85 krónur                                   

Móttekin símtöl: 18,05 krónur                               

Sending á SMS: 10,45 krónur                             

Móttaka á SMS: ókeypis                                        

Niðurhalning á einu megabæti: 95 krónur            

Ísland ekki í ESB - Evra c.a. 180 krónur

Hringd símtöl: 77,4 krónur

Móttekin símtöl: 34,2 krónur

Sending á SMS: 19,8 krónur

Móttaka á SMS: ókeypis

Niðurhalning á einu megabæti: 180 krónur

Hvernig mun breytingin virka á fólk?

Það sjá allir skynsamir menn að Íslendingar muni hagnast mjög á því að ganga í Evrópusambandið og taka þátt í því markaðskerfi sem þar ríkir. En það sama er ekki hægt að segja um andstæðingana sem þrættast við og hafa einnig harðneitað því að umrædd breyting á símakostnaði sé af hinu góða. Rökleysa þeirra er sú sama þar og í öðrum málum er varða Evrópusambandið.

Breytingin mun lækka símakostnað, koma í veg fyrir svimandi háa símareikninga og gera fólki kleyft að hringja meira en það áður átti kost á. Þak Evrópusambandsins í núverandi mynd er hærra en það verður á komandi árum því stefnt er að því að lækka símakostnað enn frekar á árunum 2010 og 2011.

Þessi stórgóða reglugerð mun nýtast Íslendingum að nokkru leyti til batnaðar ef ekki er gengið í ESB en með inngöngu okkar í sambandið munum við njóta góðs af henni, jafnt á við aðrar þjóðir Evrópusambandsins.


Madonna er ekki ein í baráttunni

Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Madonnu eða alveg frá því að ég keypti mér fyrstu plötu hennar sem var titluð eftir gyðjunni sjálfri. Platan innihélt frábær lög eins og "Borderline", "Think of me" og "Everybody". Enn betri var þó næsta plata hennar "Like a Virgin" sem er að mínu mati besta plata hennar frá upphafi.

Á seinni árum hefur Madonna í auknum mæli blandað sér í pólitík og margsinnis talað máli þeirra sem minna mega sín. Nú síðast mótmælti hún kynþáttahatri gegn sígaunum. Ég get lýst mig sammála söngkonunni í hennar helstu baráttumálum.

Sígaunar verða fyrir töluverðri mismunun í Evrópu og jafnvel þeirri mestu sem nokkur minnihlutahópur sætir í álfunni, ásamt svertingjum.

Evrópusambandið hefur áætlun til að bregðast við gegn þeirri mismunun og rasisma sem sígaunar verða fyrir. Mannréttindaskrifstofa Evrópu hefur gert ítarlegar rannsóknir á fyrirbærinu og hefur hannað viðbragðsáætlun m.a. um hvernig hjálpa skuli þeim sígaunum sem lenda t.d. í mismunun á vinnumarkaði og þeim sem verða fyrir ofbeldi vegna þjóðernisuppruna síns.

Í Ungverjalandi voru sex sígaunar myrtir á síðasta ári. Stjórnvöld þar í landi rannsökuðu ekki málið ofan í kjölinn og brugðust seint við. Vegna þrýstings Evrópusambandsins var sett í gang ítarleg rannsókn og tókst að hafa uppi á glæpahringnum sem stóð fyrir morðunum og eru mennirnir nú í haldi lögreglu.

Afskipti ESB af málinu sýna hversu mikið sambandið er tilbúið að leggja að mörkum til þess að vernda þjóðfélagslega minnihlutahópa.

Líklegast vegna þess hversu mjög almenningi í Ungverjalandi er illa við sígauna þá þótti stjórnvöldum ekki ástæða til að leggja sig fram við að stöðva morðölduna. Svokallaður "populismi" réði þar ferð.

Hefði Evrópusambandið ekki gripið inn í málið, má reikna með því að morðingjarnir væru enn að stunda iðju sína.


mbl.is Púað á Madonnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Önnur níðskrif gegn ESB í Mogganum

Um daginn fjallaði ég um svívirðilega grein sem birtist í Morgunblaðinu þar sem greinarhöfundur vændi Evrópusambandið og stuðningsmenn þess um nasisma.

Í dag, þann 27.8, birtir blaðið aftur viðlíka skrif þar sem höfundurinn líkir Evrópusambandinu við gömlu Sovíetríkin. Höfundur sakar einnig áhrifamenn sambandsins og stuðningsmenn þess um að sækjast eftir heimsyfirráðum.

Um þessa vitleysu er best að hafa sem fæst orð en maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvort Mogginn eigi orðið í erfiðleikum með að fylla blaðið af málefnalegum greinum? Eða er ástæðan fyrir birtingu þessara skrifa sú að ritstjórnin sé svo á móti ESB að hún sé tilbúin að birta öll níðskrif gegn sambandinu? Jafnvel þó skrifin innihaldi rógburð og stangist á við lög?

Eins og ég hef fjallað um áður þá er það fremur regla en undantekning að hatursmenn ESB hati einnig útlendinga og samkynhneigða. Margir þeirra eru einnig trúarofstækismenn og eru haldnir djúpri kvenfyrirlitningu. Heimskulegar skoðanir haldast oftast í hendur.

Það kemur því varla á óvart að höfundur þessarar greinar, Þorsteinn Scheving Thorsteinsson, er þekktur fyrir afneitun sína á helför gyðinga.


Út hetjum í skúrka

Það fagnaði öll þjóðin með stelpunum okkar er þær náðu þeim áfanga að komast í úrslitakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu. Stelpurnar urðu hetjur í augum fólks og ungar stúlkur gerðu þær að fyrirmyndum sínum.

Undanfarin ár hefur mikill árangur náðst í jafnréttismálum og þá sérstaklega þeim málum sem snúa að jafnrétti kynjanna. Innan ESB hefur þó tekist betur til en í öðrum Evrópulöndum.

Kvendómarar hafa í auknum mæli komið fram á sjónarsviðið en það þekktist varla fyrir nokkrum árum að konur dæmdu knattspyrnuleiki. 

Ég hef tekið eftir því að þegar að hallar á lið í þessari keppni, þá er nærtækasta afsökunin sú að kvenkynsdómararnir séu lélegir og verri en karlarnir.

Maður að nafni Björn Halldórsson bætti mér við sem bloggvini sínum fyrir nokkrum vikum. Viðkunnanlegur maður og kurteis. Á síðu sinni fjallaði hann um atvik sem tengdist Íslenska landsliðinu. Þar benti hann á að þjálfarinn og stelpurnar hefðu verið með rasisma fyrir leikinn gegn Frakklandi.

Ég ætla mér ekki að fullyrða um hvort ásakanir hans séu réttar og tel hann reyndar hafa farið full geyst í röksemdarfærslu sinni. Fyrir að vekja máls á þessu var Björn rekinn af Moggablogginu. Sömu leið fór annar bloggari, DoctorE, fyrir skömmu er hann gagnrýndi falsspákonu.

Tveimur dögum eftir að Björn fjallaði um meintan rasisma Íslenska landsliðsins þá kemur þessi forkastanlega yfirlýsing frá einni landsliðskonu okkar og óneitanlega ýtir það enn frekar undir þann grun að rasismi hafi verið uppi á teningnum hjá liðinu fyrir Frakklandsleikinn.

Stelpurnar virðast því miður ekki bera af sér góðan þokka og ég reikna með að ímynd þeirra sé hægt og rólega að breytast í augum almennings.

Innan Evrópusambandsins er tekið hart á ummælum og hegðun sem þessari. Málin eru rannsökuð en ekki látin sem vindur um eyru þjóta eins og tíðkast hér á landi. Það er gert til þess að vernda þjóðfélagshópa fyrir mismunun og aðkasti.

Tjáningarfrelsi er hornsteinn lýðræðisins og sambandið hefur tekið afstöðu til þess að það verði að virða. Brjóti menn engin lög er ólöglegt að hefta tjáningarfrelsi þeirra. Myndi sambandið því umsvifalaust bregðast við ef lokað væri á bloggara sem hefðu ekkert til sakar unnið.

Réttindi fólks til jafnréttis og tjáningarfrelsis eru enn af skornum skammti á Íslandi. Breyting verður þó þar á ef þjóðin sýnir þá skynsemi að kjósa með inngöngu okkar í Evrópusambandið.


mbl.is EM: Ég vil dómara með typpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gemsarnir, Tölvurnar, Pizzurnar og ESB

Ég ólst aldrei upp við þau þægindi sem æska landsins gerir í dag. Í mínu ungdæmi voru engir gemsar, tölvur eða pizzur sem hægt var að panta sér.

En ég man eftir því þegar þetta kom allt fyrst fram á sjónarsviðið. Margir voru tortryggnir og leyst ekkert á nýjungarnar.

Minnist ég þess að margir hræddust gemsana í upphafi og töldu þá hin mestu skaðræðistól og hétu því að notast aldrei við slík tæki. Eins var farið með tölvurnar og ég man eftir því að sérstaklega eldra fólk taldi pizzurnar vera hluta af Amerískri lágkúru og hétu því að fá sér aldrei sneið, lambakjötið var nógu gott á þeirra disk og þar sem þau höfðu aldrei alist upp við neitt annað, þótti þeim óþarfi að breyta út frá venjunum.

Hræðslan við breytingar á sér margar birtingarmyndir en byggist þó fyrst og fremst á fordómum, hræðslu við hið óþekkta. Ávallt þegar nýjungar koma fram á sjónarsviðið þá hafa þeir hæst sem ekki hafa kynnt sér málið og telja sig knúna til þess að vara menn við því að breytingarnar muni riðla öllu mannlegu lífi fólks og leggja það í rúst.

Þessir sömu menn þrjóskast lengi vel við að notfæra sér nýjungarnar en með tímanum ákveða þeir að prófa og sjá hvort að breytingin sé jafn slæm og þeir héldu.

Menn, sem óttuðust gemsana, notast flestir við þá í dag og þeir sem héldu að tölvurnar væru skaðræðistól, notast einnig við þær í dag. Margir þeirra nota raunar þessi tæki til að berjast gegn öðrum nýjungum sem gætu eyðilagt samfélagið að þeirra þröngsýna mati.

Eldra fólk, sem vildi ekkert annað en lambakjötið sjá, pantar sér pizzur í dag og finnst þær góðar.

Í dag er töluverð hræðsla hjá mörgum gagnvart ESB. Bent hefur verið á með skýrum rökum að hag Íslands sé best borgið í sambandinu en hinir fordómafullu eru ekkert að láta staðreyndirnar standa í vegi sínum.

Löngu fyrir tíma gemsana þá riðu bændur í bæinn til að mótmæla heimilissímanum og töldu að notkun tækisins myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Íslenskt samfélag.

Skrifstofubóndinn og einangrunarsinninn Jón Baldur Lorange var ekki fæddur á þeim tíma en að sjálfsögðu hefði hann riðið fremstur manna, ef hann hefði verið uppi á þeim tíma.

Bændur í Finnlandi voru mjög andsnúnir ESB til að byrja með en eftir að Finnland gekk í sambandið þá hefur afstaða þeirra breyst og mikill meirihluti bænda, þar í landi, er hlynntur ESB í dag.

Þannig er því raunar farið með allar stéttir í öllum ESB löndum. Allsstaðar er mikill meirihluti fólks ánægt með sambandið þrátt fyrir að andstaða við það hafi verið mikil áður en löndin gengu í sambandið.

Í dag eru liðin 15 ár frá því að gemsar komu fyrst til Íslands. Hvernig ætli lífið væri ef hlustað hefði verið á þá sem ekki vildu sjá tækin?


mbl.is Afmæli gemsans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þráinn segir skilið við einangrunarsinna

Eini heiðarlegi þingmaður Borgarahreyfingarinnar, Þráinn Bertelsson, hefur tilkynnt að hann hyggist segja sig úr hreyfingunni eftir helgina.

Þráinn komst upp á kant við hina þrjá þingmenn Borgarahreyfingarinnar er hann hélt tryggð við stefnu hreyfingarinnar og kaus að ganga til aðildarviðræðna við ESB.

Eftir það neituðu hinir þingmenn Borgarahreyfingarinnar að hafa samskipti við hann og hófu að bera út róg um þennan ágæta mann.

Rógurinn náði hámarki þegar hin ómerkilega Margrét Tryggvadóttir sendi tölvupóst til Katrínar Baldursdóttur, varaþingmanns Borgarahreyfingarinnar, sem "óvart" rataði á alla meðlimi hreyfingarinnar.

Í póstinum dylgjaði Margrét um geðheilsu Þráins og sagði hann þjást af þunglyndi og alzheimer á byrjunarstigi.

Rógburður sem þessi er ólöglegur samkvæmt Íslenskum lögum en þar stendur.

 „Ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári.“

Formaður Borgarahreyfingarinnar, Herbert Sveinbjörnsson, hefur nú sagt sig úr henni og í yfirlýsingu sinni segir hann að hreyfingin hafi snúist upp í andhverfu sína.

Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari eru svo ómerkileg að þau láta sér ekki nægja að svíkja gefin kosningaloforð heldur ráðast þau ósmekklega gegn hverjum þeim sem vogar sér að reyna að halda í upprunalega stefnu Borgarahreyfingarinnar sem snerist aðallega um að stöðva spillingu og auka lýðræði.

Borgarahreyfingin hefur nú fetað í sömu fótspor og Frjálslyndi flokkurinn. Hjá Frjálslyndum skemmdi rasisminn flokkinn en einangrunarstefnan hjá Borgarahreyfingunni. Örlög Borgarahreyfingarinnar munu fljótt verða þau sömu og hjá Frjálslyndum, að enda á öskuhaugum Íslenskrar stjórnmálasögu.

Ég votta þeim meðlimum Borgarahreyfingarinnar, sem studdu hana af góðum hug, samúð mína.
mbl.is Þráinn segir sig úr þingflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grein sem vert er að lesa

Jón Gunnar Bjarkan skrifaði í gær frábæra grein um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Í greininni bendir Jón á, með mjög góðum rökum, að sjávarútvegur okkar muni eflast til muna með inngöngu í ESB.

Því hefur verið haldið fram af andstæðingum ESB að sambandið ætli sér að stela fisknum okkar og að framtíðartekjur Íslendinga af þessari mestu auðlind okkar verði nær engar ef við göngum í sambandið. Um hreinustu lygar er að ræða og hræðsluáróður af verstu tegund.

Oft hafa þessar fullyrðingar verið hraktar en mér þykir full ástæða til að benda á grein Jóns þar sem sjaldan hefur verið gerð jafn ítarleg úttekt á málefninu áður.

Jón er mjög nýlega byrjaður að blogga hér á Moggablogginu og skrifar einstaklega vandaðar greinar. Ekki kemst hann þó á forsíðu bloggsins frekar en aðrir sem styðja ESB.

Þykir mér því full ástæða til að benda fólki á að lesa umrædda grein Jóns er nefnist "ESB og Fiskurinn.". Ég mæli einnig eindregið með því að fólk lesi aðrar greinar hans. Mjög efnilegur bloggari þarna á ferð.

"ESB og Fiskurinn."


Vaxandi stuðningur við ESB aðildarviðræður hjá Íslendingum

Á Íslandi hefur stuðningur við Evrópusambandið farið ört vaxandi á síðustu misserum. Eins og alþjóð veit samþykkti Alþingi að senda inn aðildarumsókn okkar að bandalaginu þann 16. Júlí síðastliðinn.

Fyrsta skoðanakönnunin, eftir að Alþingi samþykkti aðildarumsóknina, leit dagsins ljós í Fréttablaðinu í morgun.

Skoðanakönnunin fór þannig fram að hringt var í 800 manns þann 28. Júlí og skiptust svarendur jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu. Var spurt "Ert þú fylgjandi aðildarviðræðum við Evrópusambandið?". 87,1% fólks tók afstöðu og svaraði spurningunni. Voru 58,5% af þeim hlynntir aðildarviðræðum á meðan 41,5% voru á móti.

Einn helsti áróður ESB andstæðinga, eftir 16. Júlí, hefur verið að niðurstaða kosninga Alþingis, um aðildarumsókn okkar, hafi verið ólýðræðisleg og að meirihluti þjóðarinnar vilji ekkert með ESB hafa. Þeir fullyrða einnig að þingmönnum Vinstri Grænna hafi verið hótað öllu illu af Samfylkingunni ef þeir kusu að hafna aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Nú kemur í ljós að stuðningur almennings við aðildarumsóknina er heldur meiri en hjá þingmönnum þjóðarinnar. Í kosningum þingmanna voru 54% hlynntir en 46% á móti. Hvernig útskýra einangrunarsinnarnir það?

Vilja andstæðingar Evrópusambandsins kannski líka halda því fram að svarendum könnunarinnar hafi verið hótað símleiðis?

Lygar, dylgjur og rangfærslur ESB andstæðinga hafa gert þá ómarktæka í þjóðmálaumræðunni. Þjóðin hefur fengið nóg af bulli þeirra og sér nú í auknum mæli að aðild að Evrópusambandinu er hagstæðasti kosturinn fyrir Ísland.

Stuðningurinn mun einungis fara vaxandi með tímanum.


Löggjöf Evrópusambandsins gegn kynjamisrétti hefur gefist vel

Á Íslandi hefur kynjamisrétti á vinnustöðum lengi verið við lýði og konur hafa sætt töluverðri mismunun. Fyrir nokkrum árum leiddi rannsókn í ljós að konur höfðu að meðaltali aðeins um 64% af launum karlmanna. Sömuleiðis sættu þær mismunun í ráðningum á yfirmannsstöðum.

Herferð var sett á stað til að greiða úr þessu ójafnrétti en nú mörgum árum seinna virðist enn vera sama staðan upp á teningnum þó minna sé fjallað um það.

Evrópusambandið sá vandann fyrir löngu síðan og hóf þegar að styrkja lagasetninguna um kynjajafnrétti á vinnustöðum. Var það gert til að koma í veg fyrir að kyn fólks réði launum þeirra, stöðu og öðrum þáttum.

Í nýlegri skýrslu Evrópusambandsins kemur fram að lögin hafi gefist vel í þeim löndum sem hafa tekið þau upp og dregið hefur að nokkru leyti úr mismunun þar.

Það er jákvætt skref.

Vilji Íslendinga til að draga úr kynjamisrétti á vinnustöðum hefur verið mikill en almennilegar lagasetningar hefur vantað.

Með inngöngu okkar í ESB munum við eiga þess kost að taka upp þessi sömu lög og munu þau hjálpa okkur til að bæta kynjajafnrétti á vinnustöðum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband