Brot á tjáningarfrelsi listamanns

Hræðsluáróður ESB andstæðinga hefur magnast upp eftir að Alþingi samþykkti að senda inn aðildarumsókn að bandalaginu. Hótað hefur verið stríði, jafnvel blóðugu, og stofnun öfga-þjóðernisflokks verið boðuð.

ESB andstæðingar vita að "áróðursstríðið" þeirra er tapað. Þeir eru orðnir örvæntingarfullir enda taka sífellt færri mark á þeim og sjá í gegnum lygarnar og blekkingarnar. Kannanir hafa sýnt að ESB aðild nýtur stuðnings meirihluta þjóðarinnar og stuðningurinn virðist aðeins fara vaxandi.

Lýðræðislegar kosningar eru ekki virtar. Vilji almennings er ekki virtur. Skoðanir þeirra eru hinn heilagi sannleikur að þeirra þröngsýna mati. Inn í málflutninginn blandast trúarofstæki og gamaldags útlendingafordómar.

Þegar hræðsluáróðurinn gengur ekki í fólk er gripið til þjófnaðar.

Hlynur Hallsson, myndlistarmaður og fyrrverandi varaþingmaður Vinstri Grænna, hefur nú þrívegis orðið fyrir barðinu á þjófum sem hafa ítrekað fjarlægt listaverk hans á Akureyri. Þjófarnir eru andstæðingar Evrópusambandsins og líkar illa sá listgjörningur Hlyns að flagga Evrópusambandsfánanum á hólma í tjörninni við Drottningarbraut.

Þjófnaður er ólöglegt athæfi eins og öllum er kunnugt um. ESB andstæðingar telja hinsvegar að það sé tjáningarfrelsi sitt að stela ef það hentar málstað þeirra.

Andstæðingar Evrópusambandsins hafa sýnt að þeir eru tilbúnir að fremja glæpi til að koma sínu á framfæri. Í kjölfar þjófnaðar fylgja alvarlegri brot og ef marka má hótanir þeirra þá er ekki langt í að slík brot verði framin. Því ættu yfirvöld að líta málið alvarlegum augum.

En fyrst og fremst þarf að kenna ESB andstæðingum það að tjáningarfrelsi er virt á Íslandi og listgjörningur sem þessi er löglegur þó þeim líki hann ekki.


mbl.is Andstæðingar ESB mótmæla listaverki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umsókn að "Nasistabandalaginu" vísað til framkvæmdastjórnar þess?

Mér svelgdist á morgunkaffinu í morgun er ég las grein í Morgunblaðinu. Greinin sem um ræðir er skrifuð af Kristjáni Snæfells Kjartanssyni og ber heitið "Vinstri bláir, Samvirkniflokkurinn og full aðild að Nasistabandalaginu" og er undir greinarflokknum "Bréf til blaðsins" á síðu 17.

Sjaldan eða aldrei hefur jafn ógeðfelld grein verið birt á síðum Moggans. Fyrir utan rangfærslurnar í greininni er vegið með ógeðslegum hætti að meirihluta þjóðarinnar og er ég ekki í nokkrum vafa um að greinin varðar við hegningarlög.

Í greininni segir Kristján að Samfylkingin (sem hann kallar "Samvirkniflokkinn") sé "Nasistaflokkur" og kallar ESB sömuleiðis "Nasistabandalag".

Með samlíkingu sinni er Kristján að bendla saklaust fólk við mestu fjöldamorðingja sögunnar. Hann kallar heilan stjórnmálaflokk, alla ríkisborgara ESB ríkja og meirihluta Íslendinga hreint út sagt "Nasista".

Fyrir utan ærumeiðingarnar eru samlíkingar Kristjáns kolrangar. Samfylkingin er bandalag jafnaðarmanna og ESB var stofnað einmitt til þess að koma í veg fyrir endurreisn fasismans í Evrópu. Stefna sambandsins byggir á mannvirðingu og hefur ESB verið leiðandi í lagasetningum er leggja bann við kynþáttafordómum og hverslags mismunun.

Nasistasamlíkingar hafa verið algengar hjá andstæðingum ESB gagnvart ESB sinnuðum í gegnum tíðina. Slíkar samlíkingar koma þó úr hörðustu átt enda er ljóst, þegar stefna Hægri-Öfgaflokka í Evrópu er skoðuð, að allir eru þeir andsnúnir ESB. Hvers vegna ætli það sé? Einmitt vegna þess að ESB mun aldrei leyfa fasismanum að ná yfirhöndum í álfunni aftur. Sambandið mun berjast gegn endurreisn fasismans af öllum mætti.

Eftir lestur þessarar greinar spyr maður sjálfan sig hvort Morgunblaðið sé tilbúið að birta hvaða svívirðingar sem er í blaðinu?

Þykir ríkissaksóknara ekki full ástæða til þess að lögsækja menn sem setja fram slíkar ærumeiðingar og ósannindi á opinberum vettvangi?


mbl.is Össur: „Diplómatískur sigur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangfærslur og lygar Jóns Bjarnasonar

Þessa dagana fer mikið fyrir hræðsluáróðri, rangfærslum og lygum hjá ESB andstæðingum. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er einn þeirra manna sem beitir slíkum aðferðum.

Í atkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að ESB sagði Jón nei. Í stað þess að skoða hvaða samning við kynnum að fá þá ákvað Jón að betra væri að halda sem fastast í óbreytt efnahagsástand. Hann treysti ekki þjóðinni til að taka lýðræðislega ákvörðun um framtíð sína. Einangrun landsins er búfræðingnum frá Strandasýslu mikilvægast allra mála.

Það sem er alvarlegast við yfirlýsingu Jóns, í samtali hans við RÚV, eru vísvitandi lygar og rangfærslur sem felast í orðum hans. Hann nefnir hótanir Breta og Hollendinga, segir að hryðjuverkalög Breta, yfirlýsingar Hollendinga um Icesave deiluna og kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu þess eðlis að fresta þurfi umsóknarferli okkar að ESB.

Bretar hafa lýst yfir opinberum stuðningi við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hryðjuverkalögin eru vissulega umdeild en að notfæra sér milliríkjadeilu sem fjallar ekki með beinum hætti um ESB er lágkúra á háu stigi.

Utanríkisráðherra Hollands hefur farið mikinn undanfarið en hótanir hans lýsa ekki afstöðu heillar þjóðar. Á meðal Hollendinga hefur verið umtalsverður stuðningur við aðildarumsókn Íslands þó svo að enn eigi eftir að koma opinber stuðningsyfirlýsing frá þjóðinni.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir þær kröfur til Íslendinga að við stöndum við skuldbindingar okkar eins og siðaðri þjóð sæmir.

Málflutningur Jóns er lýsandi dæmi um kjánalegan málflutning einangrunarsinna. Hann hikar ekki við að fara með rangfærslur og beita fyrir sig lygum. Jón getur seint talist til lýðræðissinna þar sem hann viðurkennir ekki lýðræðislegar kosningar Alþingis um aðildarumsókn að ESB.

ESB andstæðingar eru búnir að koma sér fyrir í skotgröfum sínum og sjá sér ekki annað fært en að ljúga að þjóðinni. Málflutningur þeirra er sá ómerkilegasti sem við höfum séð í langan tíma og er dæmdur til þess að mistakast. Þjóðin er ekki það heimsk að hún láti blekkja sig með svona dellu.


mbl.is Vill fresta umsóknarferli ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birgitta Jónsdóttir reynir að afvegaleiða umræðuna um ESB

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, hefur farið mikinn að vanda á þingi og í fjölmiðlum nýlega. Sakar hún Alþingi um einelti, hótanir og kúganir.

Í aðdraganda kosninga lýsti Birgitta því margsinnis yfir að stefna Borgarahreyfingarinnar væri að leyfa þjóðinni sjálfri að taka lýðræðislegar ákvarðanir um framtíð sína m.a. með þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB aðild.

Þegar leið að atkvæðagreiðslu um málið varð hinsvegar ljóst að stefna hennar hafði breyst og hótaði hún því að ef ríkisstjórnin samþykkti ekki tilögur Borgarahreyfingarinnar um Icesave málið þá myndi hún kjósa gegn aðildarumsókn að ESB.

Hótunina stóð hún við ásamt flokkssystkinum sínum þeim Þór Saari og Margréti Tryggvadóttur sem einnig sviku gefin kosningaloforð og stimpluðu sig sem tækifærissinna.

Birgitta hefur ítrekað sakað Samfylkinguna um ólýðræðisleg vinnubrögð og þá hefur hún sakað Jóhönnu Sigurðardóttur um einræðistilburði.

Hún segir að þingmenn Vinstri Grænna séu beittir andlegu ofbeldi af hálfu Samfylkingarinnar og að þingmenn VG fái ekki að hafa sjálfstæðar skoðanir á ESB. Vegna þessa vill hún að tekin verði upp á þingi Olewus eineltisáætlunin. Notast er við þá áætlun í flestum skólum og þykir hún hafa gefið góðan árangur í baráttunni gegn einelti.

Skilningur Birgittu á einelti er þó jafn takmarkaður og skilningar hennar á flestum öðrum málefnum. Í umræðuþáttum fyrir kosningar kom t.d. í ljós að hún vissi ekki hvað stjórnlagaþing væri.

Hatur hennar gegn ESB er slíkt að hún getur ekki unað lýðræðislegum kosningum þingsins um aðildarviðræður við sambandið og reynir því að afvegaleiða umræðuna með tali um "einelti" Samfylkingarinnar.

En við því var að búast af einangrunarsinnum að þeir leituðu allra leiða til að rægja aðildarsinna. Þeir geta einfaldlega ekki sætt sig við að Ísland er á leiðinni í ESB.


Óviðunandi stefna í mannréttindamálum

Litháen á sér merka sögu, þjóðin varð t.d. fyrst allra Baltneskra þjóða til að endurheimta sjálfstæði sitt úr klóm Sovíetríkjanna þann 11. Maí 1990 og vorum við Íslendingar fyrsta þjóðin til að viðurkenna sjálfstæði landsins. Það launuðu þeir okkar nú nýlega með að styðja umsókn okkar um aðild að Evrópusambandinu.

Árið 2004 gekk Litháen í ESB en til að fá inngöngu í sambandið er þess krafist að þjóðir uppfylli ströng skilyrði um mannréttindi og af þeim sökum hefur umsókn Tyrkja að sambandinu dregist á langinn.

Evrópusambandið taldi árið 2004 að Litháen uppfyllti öll skilyrði m.a. með banni við hverslags mismunun á fólki. Nú virðast hlutirnir breyttir í Litháen og fordómar gagnvart samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og trans einstaklingum hafa skotið upp kollinum á nýjan leik.

Litháenska þingið samþykkti þann 16. Júní 2009 lög sem banna alla jákvæða umræðu um samkynhneigða, tvíkynhneigða og trans einstaklinga. Þetta segjast þeir gera í þeim tilgangi að vernda líkamlega og andlega heilsu ungmenna. Taka lögin gildi í Mars 2010.

Minna lögin óneitanlega mjög á stefnu þá er boðuð var af nasistum á sínum tíma. Bæði brjóta þau gegn samþykktum ESB um mannréttindi og tjáningarfrelsi.

Samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og trans einstaklingar hafa háð langa baráttu fyrir mannréttindum sínum. Evrópusambandið styður fólkið heilshugar og hefur verið leiðandi í setningu laga er banna mismunun.

Nú hafa Q - Samtök hinsegin stúdenta við Háskóla Íslands sent Össuri Skarphéðinssyni áskorun um að hann veki athygli á málinu við Vygaudas Usackas utanríkisráðherra Litháen í tilefni heimsóknar hans hingað til lands. Um leið og Össur þakka Litháum fyrir stuðning við inngöngu okkar í ESB þá ætti hann jafnframt að vekja athygli á því að Íslendingar fordæmi allar lagasetningar er hvetja til mismununar á fólki. Mikilvægt er að hann komi því til skila en afar ólíklegt er að það eitt breyti afstöðu Litháa.

Það sem mun helst breyta afstöðu þeirra er þrýstingur ESB en fari svo að Litháar breyti ekki afstöðu sinni til málaflokksins er líklegt að framtíð Litháens í sambandinu sé teflt í tvísýnu.


mbl.is Hinsegin stúdentar skora á Össur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig má bæta Íslenska löggæslu?

Vegna niðurskurðar fjármuna til lögreglunnar reynist sífellt erfiðara að viðhalda viðunandi löggæslu. Eru glæpir sérstaklega viðloðandi vandamál í miðbænum en þar hefur verið mikill skortur á lögreglumönnum er líða tekur á helgarkvöld og ölæði er orðið umtalsvert.

Ógeðfelldar líkamsárásir og nauðganir hafa verið framdar þar. Bílar hafa verið skemmdir, brotist hefur verið inn í verslanir. Viðbragðstími lögreglunar er of langur og árásarmennirnir eru komnir í næsta bæjarfélag þegar hún loks kemur á staðinn.

Vinnubrögð Íslensku lögreglunar virðast fara síversnandi og nú nýlega gat lögreglan ekki svarað útkalli vegna innbrots sem framið var. Sem betur fer fór ekki illa þá og náði húsráðandi að flæma innbrotsþjófana í burtu.

Ekki kemur þó á óvart að viðbrögð lögreglunnar við innbrotum sem þessum séu ámælisverð. Innbrotadeild lögreglunnar hefur verið lögð niður þrátt fyrir að innbrot hafi aukist um 61% frá síðasta ári.

Sömu sögu er að segja með rannsóknardeild umferðardeildar. Hún hefur verið lögð niður.

Löggæsla er því afar bágborin hér á landi en skoðum nú hvernig staðið er að verki í Evrópusambandinu.

Glæpir eru og verða vandamál í öllum samfélögum en miklu skiptir hvernig við þeim er brugðist.

Evrópusambandið gerir skýrar kröfur um að vel sé að verki staðið í löggæslu.

Hið Evrópska löggæslusamband, Europol, styður m.a. við ríki ESB með að:

Deila upplýsingum á milli Europol og sendiherra Europol (ELOs). Sendiherrar þessir eru valdir af meðlimaþjóðum sem fulltrúar innlendra löggæslustofnana, þeir eru ekki undir stjórn Europol né formanns þess. Þeir starfa eftir landslögum sínum.

Veita upplýsingar um aðgerðir og stuðning til meðlimaþjóða.

Veita sérfræði og tæknilegan stuðning fyrir rannsóknir og aðgerðir innan ESB, undir eftirliti og lagalegri skyldu meðlimaþjóða.

Gera aðgerðaskýrslur og glæpagreiningar, á grundvelli upplýsinga og ráða söfnuðum saman af meðlimaríkjum eða frá öðrum upplýsingaveitum.

Europol styður meðlimaríki sín sérstaklega gegn:

Eiturlyfjasmygli.

Hópum sem smygla inn ólöglegum innflytjendum.

Mansali.

Hryðjuverkum.

Peningafölsunum.

Mansali og barnaklámi.

Ólöglegum innflutningi á bílum.

Peningaþvætti.

Ísland starfar með Europol nú þegar en samstarfið er takmarkað þar sem að við erum ekki enn komin í Evrópusambandinu. Með því að ganga í ESB fær Íslenska lögreglan aukna styrki, gagnlega þjálfun og mikilvægar upplýsingar í baráttunni gegn glæpum.

Mun innganga okkar í sambandið því stórbæta löggæslu hér á landi.


mbl.is Lögregla komst ekki í útköll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskandi að ferlið gangi vel

Næstkomandi Mánudag munu utanríkisráðherrar, aðildarþjóða Evrópusambandsins, hugsanlega ræða aðildarumsókn Íslands á ráðherrafundi sínum. Mikill stuðningur hefur verið við umsókn okkar frá nær öllum þjóðum ESB og þar á meðal Breta.

Mikill hræðsluáróður hefur verið í gangi um að Icesave málið muni seinka eða jafnvel hindra inngöngu Íslands í sambandið en Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur sagt það af og frá. Í orðum Carl Bildt felst einnig vísbending um að ESB muni hjálpa okkur við lausn málsins þegar við höfum gerst fullgildir meðlimir í sambandinu.

Össur Skarphéðinsson hefur unnið hörðum höndum undanfarna daga og hefur hann talað við 23 utanríkisráðherra Evrópusambandsins til að þrýsta á um að aðildarumsókn okkar verði tekin fyrir á fundinum. Á blaðamannafundi í dag stóð Össur sig með stakri prýði og svaraði spurningum af stakri snilld. 

Fundarstjórn næstkomandi Mánudag verður í höndum Svía sem nú gegna formennsku í Evrópusambandinu. Svíar hafa hjálpað okkur Íslendingum mikið undanfarið og keyrt mál okkar áfram af fullum krafti innan ESB.

Nú er bara að vona að fjallað verði um aðildarumsókn okkar næsta Mánudag enda mikilvægt að aðildarferli okkar gangi hratt og vel fyrir sig.


mbl.is Umsóknin á dagskrá á mánudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólýðræðisleg mótmæli í Brussel

Nokkur hundruð mjólkurbændur tóku sig saman og keyrðu á dráttarvélum sínum til höfuðstöðva Evrópusambandsins í Brussel og hægðu á umferð. Létu bændurnir upp ólöglega vegatálma í nágrenni byggingarinnar.  Með þessu uppátæki átti að hindra starfsmenn ESB í að komast til vinnu sinnar.

Lögreglan brást fljótt og örugglega við en öllu lauslegu var þá kastað í lögreglumenn af æstum lýðnum.

Á bloggsíðu sinni segir einangrunarsinninn Jón Baldur Lorange að Íslenskir bændur verði í framtíðinni að taka þátt í slíkum mótmælum. Hann telur að ekkert annað sé hægt í stöðunni gangi Ísland í ESB.

Það er grafalvarlegt mál að forstöðumaður tölvudeildar Bændasamtaka Íslands og fulltrúi Fjarskiptasjóðs hvetji Íslenska bændur til þáttöku í mótmælum þar sem lögreglumenn eru beittir ofbeldi og umferð stöðvuð ólöglega.

Bændurnir söfnuðust þarna saman til að mótmæla mjólkurkvóta ESB en vegna efnahagskreppunnar hefur orðið samdráttur í sölu mjólkur og mjólkurafurða.

Fráleitt er að halda því fram, líkt og mjólkurbændurnir, að ESB hafi ekki gert ráðstafanir í málinu enda hefur sambandið brugðist fljótt og örugglega við vandanum. Mun m.a. verða fylgst með verðlagi mjólkur og þess gætt að það sé innan eðlilegra marka. Hver bóndi innan ESB mun svo hljóta styrk upp á 15.000 evrur.

Örfáir mjólkurbændur, sem hata og fyrirlíta Evrópusambandið, endurspegla ekki afstöðu allra bænda innan sambandsins. Fámennið í mótmælunum bendir mun frekar til þess að þeir séu í miklum minnihluta.


mbl.is Bændur mótmæla í Brussel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarhagur að greiða skuldir okkar

Ögmundur Jónasson hvetur til þess að Íslendingar snúi bökum saman og hugsi einungis um þjóðarhag. Þarf þó ekki einnig að hugsa um hag annara þjóða?

Með því að ganga í Evrópusambandið og eiga þannig raunhæfa möguleika á að borga skuldir okkar gerum við það. Þannig verður almennum borgurum Bretlands og Hollands greiddur sá skaði sem Icesave olli þeim og við Íslendingar byrjum með hreint borð að nýju.

Fjöldi landsmanna vill þó sleppa billega frá Icesave málinu. Vilja þeir sleppa við að borga erlendum sparifjárseigendum innistæðu reikninga sinna og nota fjármunina frekar í að "byggja upp landið".

Slíkt er fyrst og fremst óheiðarleiki og kjánaskapur. Með því erum við bæði að svíkja saklausa borgara og gera okkur sjálf að lítilmennum.

Hver vill eiga viðskipti við slíka þjóð og átta menn sig ekki á því hvað gerist ef Ísland einangrast og sett eru á okkur viðskiptabönn?

Andstæðingum Evrópusambandsins er sama þó svo verði og hafa þeir gengið harðast fram í að hvetja Íslendinga til að fyrra sig ábyrgð Icesave reikningana með lýðskrumi sínu.

Þverpólitísk samstaða með slíkum einangrunarsinnum er ómöguleg því horfa þar fram á veginn og leysa vandamálin á Evrópskum grundvelli.

Í grein minni "Leitað verði eftir aðstoð ESB við samningagerð" tel ég upp hvernig best sé að standa að samningagerð á bæði raunhæfan og hagsýnan hátt.


mbl.is Ögmundur: Hugsum um þjóðarhag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitað verði eftir aðstoð ESB við samningagerð

Þeir sem töpuðu á Icesave voru almennir borgarar sem í sakleysi sínu voru blekktir, blekkingin varð til þess að fjölmargir einstaklingar töpuðu öllum sínum eigum. Í nafni spilltrar ríkisstjórnar fékk Icesave að starfa, í nafni lýðræðislega kjörinnar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Sé þjóð okkar sómakær er engin önnur leið fær en að borga skuldir okkar og leiðrétta þau mistök sem gerð voru. Hvernig ætli orðspor þjóðarinnar verði ef við greiðum ekki skuldirnar?

Utanríkisráðherra Hollands, Maxime Verhagen, hefur nú hótað Íslendingum því að ljúka samningunum eins hratt og unnt er. Hann hótar því að Íslendingar fái ekki inngöngu í sambandið fyrr en Alþingi samþykkir Icesave samkomulagið.

Hótanir þessar eru ekki gerðar í umboði Evrópusambandsins og talar Verhagen einungis fyrir sjálfan sig. Á vefsetrum Evrópusambandsins er aðildarumsókn Íslands fagnað og þjóðinni óskað til hamingju með áfangann. Ekki er annað að heyra frá Evrópusambandinu en að þeir séu mjög ánægðir með að Ísland muni, að öllum líkindum, loks tilheyra bandalaginu.

Í samningagerð sem þessa ber að fara með ítrustu varúð og ekki skrifa undir neitt sem ekki er hægt að standa við. 

Íslendingar beiti sér fyrir eftirfarandi samkomulagi

1. Mikilvægt er að Íslendingar leiti aðstoðar Evrópusambandsins varðandi samkomulagið og fái frestun varðandi undirskrift þess.

2. Ísland verði orðið aðili að ESB þegar skrifað er undir samkomulagið og fái hjálp sambandsins til að ná sangjörnum samningum.

3. Evran verði orðin opinber gjaldmiðill áður en hafist verði handa við að greiða skuldir okkar.

Kjósi Íslendingar að hafna Evrópusambandinu er ómögulegt að greiða skuldirnar vegna gríðarlegs halla ríkissjóðs.

Með því að ganga í Evrópusambandið getum við treyst á betri samninga og með upptöku Evru er raunhæfur möguleiki á að greiða skuldir okkar.


mbl.is Þrýst á Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband